0
Hlutir Magn Verð

 

Sigurgeir Jónasson ljósmyndari er fæddur í Vestmannaeyjum þann 19. September 1934 og því rétt kominn inn í áttunda áratug ævi sinnar. Alla sína ævi hefur Sigurgeir verið búsettur í Eyjum og lengst af tvinnað saman atvinnu sína og áhugamál í ljósmyndun.

Ungur að árum hóf Sigurgeir að taka ljósmyndir og þá helst af viðburðum er áttu sér stað í Vestmannaeyjum. Fyrstu myndir hans birtust í fjölmiðlum, þegar hann var aðeins 13 ára gamall. Allt frá þeim tíma hefur Sigurgeir fengist við fréttaljósmyndun fyrir dagblöð og tímarit og eru margar mynda hans mikilvægar heimildir um viðburði í sögu Vestmannaeyja svo og sögu Íslands. Má þar nefna ljósmyndir frá eldgosum, atvinnuháttum, sem nú heyra sögunni til, svipmyndir af samtíðarmönnum og þannig mætti lengi telja. Ljósmyndir hans tengdar fiskveiðum og fiskvinnslu á hálfrar aldar tímabili er ómetanlegur fjársjóður horfinna tíma og þá vekja eldri ljósmyndir af íbúum bæjarins ætíð mikla athygli.

Sigurgeir Jónasson ljósmyndari að störfum

Sigurgeir hefur einnig haft sérstakan áhuga á óviðjafnalegri fegurð náttúru Vestmannaeyja, dýra- og fuglalífi þeirra og fjölbreytilegu mannlífi. Í safni hans er gríðarlegur fjöldi ljósmynda af einstökum listaverkum náttúrunnar. Með athugulum augum hefur Sigurgeir náð að festa á mynd ótrúlega skúlptúra og form, sem almenningi yfirsést í daglegri umgengni við umhverfi sitt.

Um þessar mundir starfar Sigurgeir við flokkun og skráningu ljósmyndasafns síns, en talið er að fjöldi ljósmynda í safninu teljist í nokkrum milljónum. Samhliða þessu stundar Sigurgeir enn ljósmyndun af sömu natni og áður og sífellt bætist við nýtt efni, enda “strákurinn” í fullu fjöri enn.